Árborg kom til baka í háspennuleik

Árborgarar fagna Þorvarði Hjaltasyni, sem skoraði annað mark leiksins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar er komið í 8-liða úrslit 4. deildar karla í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á GG í seinni leik liðanna á Selfossvelli í kvöld.

Árborg og GG lentu í 2. sæti í sínum riðlum í sumar og þurftu að fara í umspil til þess að fá sæti í 8-liða úrslitunum. GG vann fyrri leikinn í Grindavík 2-1 og ljóst að Árborg þurfti að spýta í lófana í kvöld.

Það gerðu þeir heldur betur. Andrés Karl Guðjónsson kom þeim yfir með skallamarki eftir hornspyrnu á 32. mínútu og tveimur mínútum síðar stangaði frændi hans, Þorvarður Hjaltason, boltann í netið eftir aukaspyrnu frá Sveini Kristni Símonarsyni. Árborgarar voru ekki hættir og Magnús Ingi Einarsson kom þeim í 3-0 á 42. mínútu með marki úr skyndisókn. Í kjölfarið fékk leikmaður GG að líta rauða spjaldið og heimamenn því manni fleiri allan seinni hálfleikinn.

En það er ekki spurt að því í 4. deildinni. Manni færri náði GG að minnka muninn í 3-1 snemma í seinni hálfleik og vantaði gestina nú aðeins eitt mark til þess að knýja fram framlengingu. Lokakafli leiksins var æsispennandi þar sem GG menn lágu stíft á Árborgurum og dældu hornspyrnum og löngum innköstum inn í teiginn. Árborgarvörnin og Pétur Logi Pétursson í markinu voru þó með allt á hreinu og héldu út. Lokatölur 3-1 og Árborg sigraði samtals 4-3.

Árborgara bíður ögrandi áskorun í 8-liða úrslitunum en þeir mæta Einherja frá Vopnafirði, fyrst á Selfossi á laugardaginn og svo á Vopnafirði þriðjudaginn 6. september.

Fyrri grein„Við hefðum átt að gera betur“
Næsta greinSóknarpresturinn sigraði