Árborg í úrslitakeppnina

Knattspyrnufélag Árborgar tryggði sér sæti í úrslitakeppni 3. deildar karla í knattspyrnu með 4-0 sigri á KFR í kvöld.

Árborgarar voru sterkari í leiknum þó að liðið hafi virkað þreytulegt. Guðmundur Ármann Böðvarsson skoraði fyrsta mark liðsins strax á 7. mínútu og bætti öðru marki við á þeirri 22. Staðan var 2-0 í hálfleik.

Rangæingar fengu ágæt færi í upphafi seinni hálfleiks en í tvígang skapaðist hætta uppvið mark Árborgar. Jón Auðunn Sigurbergsson gerði hins vegar út um leikinn fyrir Árborg þegar hann kom knettinum í markið eftir hornspyrnu á 78. mínútu og fimm mínútum síðar kórónaði Guðmundur Ármann þrennuna.

Árborg er því komið í 8-liða úrslit 3. deildar karla í fyrsta sinn í 10 ára sögu félagsins.

Fyrri greinReynt að selja reksturinn
Næsta greinHaukar – Selfoss 2-3