Árborg í góðum málum

Knattspyrnufélag Árborgar stendur vel að vígi eftir fyrri leik liðsins gegn KFS í 8-liða úrslitum 3. deildar karla í dag.

Liðin mættust síðdegis á Hásteinsvelli og sigraði Árborg 0-2. Það var fyrirliðinn Jón Auðunn Sigurbergsson sem skoraði bæði mörk liðsins.

Árborg var sterkari aðilinn framan af fyrri hálfleik en Jón Auðunn skoraði með góðu skoti utan úr teig á 23. mínútu. Þegar leið á fyrri hálfleik féllu Árborgarar aftar á völlinn og heimamenn voru nærri búnir að jafna á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks en Njörður Steinarsson bjargaði á línu eftir að Einar Andri Einarsson hafði varið vel í marki Árborgar.

Á fyrstu mínútum síðari hálfleiks skapaðist tvívegis hætta uppvið mark Árborgar en Einar Andri var vel á verði sem fyrr. Eftir það höfðu Árborgarar góð tök á leiknum og fengu tvö góð færi áður en Jón Auðunn skoraði annað markið á 73. mínútu.

Seinni leikur liðanna er á þriðjudagskvöld kl. 20 á Selfossi og liðið sem vinnur samanlagt mætir annað hvort Tindastól eða Magna í 4-liða úrslitum.

Fyrri grein„Stórkostlegt að taka þátt í þessu“
Næsta grein„Hef verið heppnari í golfi“