Árborg fór illa með Uppsveitir – Hamar tapaði

Sigurður Óli Guðjónsson með Sergio Fuentes á hælunum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir tóku á móti Árborg í Suðurlandsslag í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Hamar heimsótti KFK í Kópavoginn.

Árborg keyrði yfir Uppsveitir í fyrri hálfleik og ef Björn Mikael Karelsson, markvörður Uppsveita, hefði ekki verið í feiknastuði hefði eflaust farið verr hjá heimamönnum. Sigurður Óli Guðjónsson og Hrvoje Tokic skoruðu báðir á fyrstu átta mínútum leiksins og Kristinn Sölvi Sigurgeirsson kom Árborg svo í 3-0 um miðjan fyrri hálfleikinn. Tokic bætti öðru marki sínu við fimm mínútum síðar og á lokamínútu fyrri hálfleiks breytti Kristinn Ásgeir Þorbergsson stöðunni í 0-5 með glæsimarki. Seinni hálfleikurinn var mjög tíðindalítill, enda úrslitin ráðin. Ingi Rafn Ingibergsson kom inná sem varamaður og skoraði sjötta og síðasta mark Árborgar, með sinni fyrstu snertingu á 70. mínútu og þar við sat, 0-6.

Hamar heimsótti KFK í Kópavoginn og þar reyndust heimamenn sterkari. KFK komst yfir strax á 6. mínútu og um miðjan fyrri hálfleikinn var staðan orðin 2-0. KFK bætti við einu marki snemma í seinni hálfleiknum og lokatölur urðu 3-0.

Staðan í deildinni er þannig að Árborg er í 2. sæti með 31 stig, Hamar í 5. sæti með 21 stig og Uppsveitir á botninum með 3 stig.

Önnur úrslit í 15. umferð 4. deildarinnar:
Vængir Júpíters 2 – 0 Álftanes
1-0 Daníel Smári Sigurðsson (’11)
2-0 Björn Dúi Ómarsson (sjálfsmark ’33)

Fyrri greinValur vann Ragnarsmótið – Perla Ruth best
Næsta greinApinn Bóbó mættur aftur í Hveragerði