Árborg fékk stig í hörkuleik

Knattspyrnufélag Árborgar náði í sitt sjöunda stig í sumar þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Fjarðabyggð á Selfossvelli í kvöld.

Leikurinn byrjaði með látum og strax á 3. mínútu fengu Árborgarar vítaspyrnu þegar Þorsteinn Daníel Þorsteinsson skaut að marki en boltinn fór í höndina á varnarmanni gestanna. Almir Cosic fór á vítapunktinn og hamraði boltann í netið.

Ekki dró til tíðinda fyrr en á 16. mínútu þegar sóknarmenn Fjarðabyggðar spiluðu sig snyrtilega í gegnum vörn Árborgar og Stefán Eysteinsson skoraði með góðu skoti. Eftir markið voru gestirnir sterkari og pressuðu Árborgara nokkuð en bæði lið áttu þó möguleika á að bæta við mörkum í fyrri hálfleik.

Árborgarar mættu vel stemmdir til síðari hálfleiks og á upphafsmínútunum átti Jón Auðunn Sigurbergsson skalla í þverslána. Gestirnir áttu nokkrar álitlegar sóknir en Árborgarliðið var sterkara í seinni hálfleik og Almir Cosic og Þorsteinn Daníel Þorsteinsson áttu báðir góð skot rétt framhjá markinu um miðjan hálfleikinn. Þorsteinn Daníel var mjög líflegur en hann er nýkominn til Árborgar að láni frá 2. flokk Selfoss.

Á 83. mínútu fækkaði dómarinn í liði Árborgar þegar Jakob Jakobsson fékk beint rautt spjald fyrir tæklingu úti á miðju velli. Árborgarar voru ekki sáttir við þennan dóm frekar en marga aðra í leiknum en þeir lögðu ekki árar í bát og áttu tvö góð færi manni færri. Það voru hins vegar gestirnir sem áttu síðasta færið á lokamínútu leiksins en á ótrúlegan hátt varði Steinar Stefánsson langskot gestanna uppi í samskeytunum.

Jafntefli var sanngjörn niðurstaða í baráttuleik, Fjarðarbyggð er eftir leikinn í 5. sæti þremur stigum frá 2. sætinu en Árborg er situr sem fastast í 11. sæti með 7 stig.

Fyrri greinMögnuð toppbarátta í 2. deildinni
Næsta greinSumar á Selfossi: Þúsund þakkir