Árborg fann ekki sigurmarkið gegn níu leikmönnum Elliða

Aron Freyr Margeirsson skoraði fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg heimsótti Elliða í Árbæinn í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Fyrir leik voru liðin með jafnmörg stig í 3. og 4. sæti deildarinnar og það breyttist ekki eftir leik kvöldsins.

Árborgarar réðu lögum og lofum á vellinum stærstan hluta leiksins og Aron Freyr Margeirsson kom þeim yfir með laglegu marki á 26. mínútu.

Staðan var 1-0 í hálfleik en þegar rúmt korter var liðið af seinni hálfleiknum jafnaði Elliði 1-1 og þær urðu lokatölur leiksins.

Þegar korter var eftir af leiknum fengu tveir leikmenn Elliða sitt annað gula spjald og þar með rautt en níu leikmenn Elliða pökkuðu í vörn og héldu út gegn ellefu Árborgurum. Það vantaði ekki færin en markvörður Elliða fór á kostum og bjargaði stigi fyrir sína menn.

Fyrri greinEyrarbakkavegur lokaður á fimmtudag
Næsta greinNýir aðstoðarskólastjórnendur ráðnir við Kerhólsskóla