Árborg fældi Kríuna á brott

Haukur Ingi Gunnarsson með boltann í leiknum í kvöld. Hann skoraði eitt af mörkum Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg vann gríðarlega mikilvægan sigur á toppliði Kríu í toppslag A-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.

Ingi Rafn Ingibergsson kom Árborg yfir með glæsilegu marki á 24. mínútu eftir að Magnús Ingi Einarsson skallaði boltann innfyrir. Ingi lagði boltann glæsilega fyrir sig með því að stela honum af tánum á varnarmanni Kríu og skoraði auðveldlega.

Árborgarar fögnuðu vel en voru goggaðir í hausinn strax í næstu sókn þegar Kría jafnaði metin með vel afgreiddu skoti úr teignum. Þeir bláu lögðu þó ekki árar í bát og á 42. mínútu var aftur komið að samvinnu Magnúsar og Inga og aftur sendi Ingi Rafn boltann í netið.

Staðan var 2-1 í hálfleik og í seinni hálfleiknum sýndu bæði lið fín tilþrif. Kría jafnaði metin á 59. mínútu en Árborgarar voru sterkari á lokasprettinum. Varamaðurinn Magnús Hilmar Viktorsson kom Árborg í 3-2 á 75. mínútu og átta mínútum síðar fylgdi Haukur Ingi Gunnarsson eftir sláarskoti frá Sindra Pálmasyni og sendi boltann í netið. Lokatölur 4-2.

Árborg er nú með 23 stig í 2. sæti A-riðilsins en Kría er áfram á toppnum með 27 stig. RB og GG anda niður um hálsmálið hjá Árborgurum sem mega ekki misstíga sig á lokasprettinum en þrjár umferðir eru eftir í riðlinum.

Fyrri greinÆgismenn komnir í sóttkví
Næsta greinBúsetuúrræði eldri íbúa og Framkvæmdasjóður aldraðra