Árborg fær „verðmætasta leikmanninn“

Knattspyrnufélag Árborgar hefur fengið miðjumanninn Almir Cosic í sínar raðir frá HK og sömuleiðis bakvörðinn Ólaf Magnússon sem kemur að láni frá Þrótti R.

Almir Cosic er 35 ára gamall og hefur leikið 83 leiki fyrir HK undanfarin fjögur ár og skorað í þeim fjögur mörk. Þar áður var hann fyrirliði Leiknis á Fáskrúðsfirði í 3. deildinni og vöktu félagaskipti hans þangað mikla athygli.

Cosic fékk viðurnefnið „verðmætasti leikmaður Íslands“ þegar hann kom til Leiknis en hann er sagður hafa vakið athygli útsendara Newcastle þegar hann lék með liði sínu, Zeljeznicar gegn Lilleström í Evrópuleikjum árið 2002. Verðmiðinn á Cosic mun hafa verið 300 milljónir króna á þeim tíma.

Ólafur er fæddur 1991 og hefur verið í æfingahópi Þróttara í sumar en aðeins einu sinni komist í leikmannahóp liðsins í 1. deildinni. Hann á að baki einn leik með meistaraflokki Þróttar.

Almir og Ólafur eru báðir komnir með leikheimild með Árborg og gætu spilað með liðinu sem mætir Hamri á útivelli í 2. deildinni í kvöld. Þar mætast topp- og botnlið deildarinnar í nágrannaslag.

Fyrri greinLeiðni og rennsli hefur minnkað
Næsta greinHeitt vatn úr borholu olli skemmdum