Árborg fær enskan leikmann

Knattspyrnufélag Árborgar hefur samið við enska leikmanninn Alfred Kamara um að spila með liðinu í 2. deildinni í sumar.

Alfred er 26 ára gamall framherji og miðjumaður. Hann er fæddur í Sierra Leone en er með enskt ríkisfang og spilaði landsleiki með U15 ára liði Englands.

Kamara fór í gegnum unglingaakademíu Arsenal áður en hann reyndi fyrir sér hjá Leicester og Ipswich. Hann hefur undanfarin ár leikið með neðrideildarliðum í Lundúnum.

Leikmaðurinn er kominn með leikheimild hjá Árborg en hann kemur til landsins í næstu viku og missir af fyrstu tveimur leikjum liðsins í deildinni, gegn Njarðvík og Hamri.