Árborg enn í baráttunni – Stokkseyri fékk skell

Árborg vann öruggan sigur á Úlfunum í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Stokkseyri steinlá gegn SR í B-riðlinum.

Aron Freyr Margeirsson kom Árborg yfir strax á 2. mínútu leiksins en Úlfarnir komu boltanum framhjá Helga Bárðarsyni markmanni Árborgar tíu mínútum síðar og staðan var 1-1 í hálfleik.

Árborg var mun sterkari aðilinn í síðari hálfleik og þegar tuttugu mínútur voru liðnar af honum skoruðu Hartmann Antonsson og Daníel Ingi Birgisson þá sitthvort markið með mínútu millibili. Árborg átti góðar sóknir í kjölfarið en það var ekki fyrr en í uppbótartíma að Arnar Freyr Óskarsson kom boltanum í netið og Árborg sigraði 4-1.

Stokkseyringar heimsóttu Skautafélag Reykjavíkur á Þróttarvöll í kvöld. Heldur varð Stokkseyringum hált á svellinu því heimamenn unnu öruggan 5-0 sigur.

Í B-riðlinum er Stokkseyri í 8. sæti með 13 stig en í C-riðlinum er Árborg enn í hörkubaráttu um sæti í úrslitakeppninni. Árborg er með 24 stig í 3. sæti riðilsins og þarf að vinna síðustu tvo leiki sína og treysta á að Skallagrímur tapi um leið stigum.

Fyrri greinSelfoss styrkti stöðu sína á toppnum
Næsta greinNý tilfelli á Úlfljótsvatni