Árborg deildarbikarmeistari í C-deild

Þorsteinn Daníel Þorsteinsson og Magnús Hilmar VIktorsson, fyrirliðar Árborgar, lyfta bikarnum í Kórnum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar er deildarbikarmeistari í C-deild karla eftir 3-0 sigur á Ými í úrslitaleik í Kórnum í Kópavogi í dag.

Leikurinn var jafn fyrsta klukkutímann, liðunum gekk illa að skapa góð færi en föstu leikatriðin komu Árborgurum til góða í dag. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson kom þeim yfir með góðu skoti eftir hornspyrnu á 24. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik.

Árborg fékk svo aukaspyrnu á áttundu mínútu seinni hálfleiks, eftir að brotið var á Aroni Frey Margeirssyni rétt fyrir utan vítateig Ýmis. Sveinn Kristinn Símonarson stillti boltanum upp og smurði honum með vinstri fæti upp í samskeytin, 2-0.

Á 60. mínútu fékk einn leikmanna Ýmis sitt annað gula spjald og þar með rautt og segja má að það hafi gert út um leikinn. Hann fjaraði all snarlega út, Árborgarar vörðust yfirvegað og sóttu hratt og úr einni slíkri sókn kom þriðja markið, þegar Aron Freyr og Kristinn Sölvi Sigurgeirsson sluppu báðir innfyrir vörn Ýmis og Kristinn skoraði auðveldlega eftir að Aron hafði rennt boltanum á hann.

Árborgarar fögnuðu vel í leikslok en þetta er annar deildarbikarmeistaratitill félagsins, liðið vann þennan sama bikar síðast árið 2009.

Árborgarar fengu 200 þúsund króna verðlaunafé frá Lengjunni, styrktaraðila keppninnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHamar tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn
Næsta greinHáskólalestin brunar á Hornafjörð