Árborg byrjar Íslandsmótið á stórsigri

Knattspyrnufélag Árborgar kafsigldi Afríku þegar liðið hóf keppni í 4. deild Íslandsmótsins á Leiknisvelli í Breiðholti í kvöld. Lokatölur urðu 1-13.

Magnús Helgi Sigurðsson hóf Íslandsmótið af krafti og var búinn að skora þrennu eftir tæplega tuttugu mínútna leik. Á eftir fylgdu tvö mörk frá Aroni Frey Margeirssyni og eitt frá Ingimar Helga Finnssyni og staðan var 0-6 í leikhléi.

Eyþór Helgi Birgisson skoraði tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks auk þess sem Afríka skoraði eitt sjálfsmark. Staðan orðin 0-9 og hálftími eftir af leiknum.

Ingvi Rafn Óskarsson skoraði tíunda markið á 63. mínútu og skömmu síðar skoraði Magnús Helgi sitt fjórða mark. Haukur Ingi Gunnarsson skoraði í sínum fyrsta leik fyrir félagið á 90. mínútu en hið óvænta gerðist í kjölfarið að Afríka minnkaði muninn í 1-12. Hartmann Antonsson vildi ekki láta tólf marka muninn af hendi og skoraði því þrettánda og síðasta mark Árborgar í uppbótartímanum.

Sannkölluð markaveisla og næst stærsti sigur Árborgar á Íslandsmóti frá upphafi.

Árborg er í 2. sæti C-riðils með 3 stig og á leik til góða á GG sem situr í toppsætinu með 6 stig.

Fyrri greinVegagerðin fellst á tengingu við Tryggvatorg
Næsta greinElvar Örn leikmaður ársins í Olísdeildinni