Árborg aftur á toppinn

Kristinn Sölvi Sigurgeirsson sækir að marki KH í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar endurheimti toppsætið í 4. deild karla í knattspyrnu með góðum 1-2 útisigri á KH að Hlíðarenda í kvöld.

Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleik en færin voru af skornum skammti. Á 32. mínútu brast stíflan þegar nýjasti leikmaður Árborgar, framherjinn Hrvoje Tokic, fékk sendingu innfyrir frá Þormari Elvarssyni og kláraði færið vel.

Þetta var eina mark fyrri hálfleiks en strax á 5. mínútu seinni hálfleiks átti Kristinn Sölvi Sigurgeirsson stórhættulega sendingu inn á vítateig KH sem fór af varnarmanni í netið. Eftir þetta efldust heimamenn nokkuð og áttu þeir meðal annars stangarskot áður en Tóbías Ingvarsson minnkaði muninn á 78. mínútu eftir snarpa sókn. Bæði lið komust í álitlegar stöður á lokakaflanum en fleiri urðu mörkin ekki og Árborg fagnaði sigri.

Árborg er í toppsæti deildarinnar með 26 stig en KH er í 5. sæti með 16 stig.

Önnur úrslit í 11. umferð 4. deildarinnar:

KFK 5 – 2 Skallagrímur
1-0 Andri Jónasson (‘15)
1-1 Sölvi Snorrason (’39)
2-1 Hubert Kotus (víti ’45+1)
3-1 Stefán Ómar Magnsson (’51)
4-1 Brynjar Jónsson (’67)
5-1 Hlynur Bjarnason (’77)
5-2 Carlos Javier Castellano (’82)

Fyrri greinLokatónleikar Engla og manna
Næsta greinLyklarnir að miðlunargeyminum voru faldir inni í agúrku