Árborg aftur á toppinn eftir Suðurlandsslaginn

Guðjón Örn Sigurðsson og Steinar Sigurjónsson reyna að stöðva Kristinn Ásgeir Þorbergsson, sem skoraði tvívegis fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg vann öruggan sigur á Uppsveitum í Suðurlandsslag í 6. umferð 4. deildar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Um leið endurheimtu Árborgarar toppsæti deildarinnar.

Árborg var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoraði tvívegis á fyrstu sautján mínútum leiksins. Það reyndust einu mörk fyrri hálfleiks en Árborg fékk nokkur prýðileg færi og Orri Ellertsson, markvörður Uppsveita, varði meðal annars vítaspyrnu frá Aroni Frey Margeirssyni undir lok fyrri hálfleiks.

Uppsveitamenn sóttu í sig veðrið í upphafi seinni hálfleiks en Árborg var meira með boltann án þess að skapa mikið af færum. Á 71. mínútu minnkaði Gústaf Sæland muninn fyrir Uppsveitir með skallamarki og örugg forysta Árborgar allt í einu komin í uppnám.

En þeir bláu keyrðu upp hraðann á næstu mínútum og varamennirnir Andrés Karl Guðjónsson og Haukur Ingi Gunnarsson skoruðu sitthvort markið með mínútu millibili og tryggðu Árborg 4-1 sigur.

Staðan í deildinni er þannig að Árborg er í toppsætinu með 16 stig en Uppsveitir eru án stiga á botninum.

Önnur úrslit í 6. umferð 4. deildarinnar:

KH 0 – 2 Tindastóll
0-1 David Toro (’14)
0-2 Jóhann Daði Gíslason (’89)

Álftanes 1 – 3 Vængir Júpíters
0-1 Jónas Breki Svavarsson (’59)
0-2 Aðalgeir Friðriksson (’62)
0-3 Aron Heimisson (’65)
1-3 Björn Dúi Ómarsson (’86)

Fyrri greinStöngin út á Akureyri
Næsta greinSkora á yfirvöld af auka neyðarviðbragð tafarlaust