Árborg afgreiddi leikinn á tíu mínútum

Árborg tók á móti Afríku í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í dag og vann öruggan 3-0 sigur.

Árborg gerði út um leikinn á tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik þar sem liðið skoraði þrjú mörk. Magnús Helgi Sigurðsson braut ísinn á 27. mínútu og rúmum fimm mínútum síðar skoraði Haukur Ingi Gunnarsson annað markið. Hartmann Antonsson bætti svo við þriðja markinu á 37. mínútu og þar við sat.

Árborg er í 3. sæti C-riðils með 19 stig og á leik til góða á Álftanes og KFS sem bæði hafa 20 stig í 1.-2. sæti.

Fyrri greinÞriggja milljarða króna velta í júní
Næsta greinFernt bjargaðist úr brennandi sumarbústað