Árborg að dragast aftur úr

Freyr Sigurjónsson skoraði fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttu D-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu þegar liðið mætti Smára á Kópavogsvelli í kvöld.

Árborgararliðið kom ferskt undan Covid-hléinu og var sterkara í fyrri hálfleik. Smáramenn komust yfir á 29. mínútu en Freyr Sigurjónsson jafnaði metin fyrir Árborg á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Árborgarar áttu nokkur dauðafæri í fyrri hálfleik og meðal annars tvö stangarskot og þeir naga sig eflaust í handarbökin fyrir að nýta ekki færin því Smáramenn komu sterkir til baka í seinni hálfleik.

Smári komst aftur yfir á 67. mínútu og bætti svo þriðja markinu við á 79. mínútu. Magnús Hilmar Viktorsson minnkaði muninn þremur mínútum síðar með glæsilegu marki en leikurinn fjaraði út á lokakaflanum og Árborg tókst ekki að finna jöfnunarmarkið.

Árborg er að missa af lestinni í toppbaráttu D-riðils. Liðið er í 3. sæti riðilsins með 14 stig en á inni tvo innbyrðis leiki við KH sem er í 3. sætinu með 18 stig og munu þeir væntanlega ráða úrslitum í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Fyrri greinHellisheiði lokað til austurs vegna umferðarslyss
Næsta greinHeiðrún Anna valin í landsliðið