Árborg á toppnum eftir sigur á Hvolsvelli

Árborg vann mikilvægan 1-2 sigur á KFR þegar liðin mættust á Hvolsvelli í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Leikurinn fór fjörlega af stað og Rangæingar fengu vítaspyrnu um miðjan fyrri hálfleik þegar Örvar Hlíðdal braut á Brynjólfi Þorsteinssyni innan teigs. Boban Jovic fór á punktinn en Steinar Örn Stefánsson, markvörður Árborgar, gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.

Árborg komst síðan yfir með marki úr vítaspyrnu á 28. mínútu. Guðmundur Garðar Sigfússon átti þá skot að marki en varnarmaður KFR, Jóhann Gunnar Böðvarsson, varði skotið með hendinni og uppskar rautt spjald fyrir vikið. Guðmundur Ármann Böðvarsson skoraði úr vítaspyrnunni.

Þrátt fyrir að vera manni færri slökuðu Rangæingar ekkert á í sóknarleiknum og Brynjólfur Þorsteinsson var nærri því að jafna með marki aldarinnar fyrir KFR með hjólhestaspyrnu en Steinar Örn tók sjónvarpsmarkvörslu og bjargaði í horn. Nokkrum mínútum síðar fékk KFR aukaspyrnu við vítateig Árborgar. Jovic framkvæmdi spyrnuna og skoraði af öryggi framhjá varnarveggnum og Steinari Erni. Árborg komst hins vegar strax aftur yfir. Eftir langt innkast skoppaði boltinn inn á Jón Auðunn Sigurbergsson sem mokaði honum með brjóstkassanum yfir marklínuna.

Síðari hálfleikur var mun rólegri og fátt um færi. Leikurinn einkenndist af stöðubaráttu á miðjunni en eftir því sem leið á leikinn dró nokkuð af Rangæingum enda manni færri. Theodór Guðmundsson komst næst því að skora fyrir Árborg en Sigmar Karlsson kórónaði góðan leik sinn með frábærri markvörslu í marki KFR.

Árborgarar eru nú einir á toppi A-riðils með 15 stig og tveggja stiga forskot á KFG. Liðin mætast á Selfossvelli á föstudag. KFR er hins vegar á botninum án stiga eftir fimm leiki.

Fyrri greinAftur drama í uppbótartíma
Næsta greinSjö marka sigur Selfosskvenna