Árborg, Ægir og Þór áfram

Knattspyrnufélag Árborgar, Knattspyrnufélagið Ægir og Ungmennafélagið Þór í Þorlákshöfn unnu öll sína leiki í bikarkeppni Knattspyrnusambands Íslands í kvöld og eru komin í 2. umferð keppninnar.

Ungmennafélag Stokkseyrar og Knattspyrnufélag Rangæinga féllu hins vegar úr leik en KFR mætti Knattspyrnufélagi Breiðholts á Helluvelli. Þar réðust úrslitin í þriðju umferð bráðabana.

Árborgarar unnu Víði Garði 1-0 í jöfnum leik á Selfossvelli. Halldór Áskell Stefánsson skoraði eina mark leiksins á 31. mínútu.

Ægir átti ekki í vandræðum með Ísbjörninn á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi og komst yfir eftir aðeins sextán sekúndna leik með marki frá Magnúsi Helga Sigurðssyni. Ægir komst í 0-2 þegar Ísbjörninn skoraði sjálfsmark á 22. mínútu en Ísbjarnarmenn komu boltanum einnig í rétt net í fyrri hálfleik og staðan var 1-2 í leikhléinu Eyþór Guðnason og Ingimar Helgi Finnsson bættu við mörkum fyrir Ægi sem komst í 1-4 í seinni hálfleik en Ísbjörninn klóraði í bakkann í uppbótartíma.

Í stórleik kvöldsins mættust Ungmennafélagið Þór í Þorlákshöfn og Ungmennafélag Stokkseyrar á Þorlákshafnarvelli. Leikurinn var jafn framan af en Jóhann G. Baldvinsson kom Þór yfir á 13. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Strax á fjórðu mínútu seinni hálfleiks jafnaði Björgvin Karl Guðmundsson fyrir Stokkseyri en Þórsarar komust strax yfir aftur með marki frá Elíasi Inga Árnasyni. Hann bætti svo öðru marki við á 67. mínútu og gulltryggði sigur Þórsara.

Það var mikil dramatík á Helluvelli þar sem KFR og KB mættust. Gestirnir byrjuðu betur og voru komnir í 0-2 eftir 25 mínútna leik. Staðan var 0-2 í hálfleik en heimamenn hresstust í seinni hálfleik og Helgi Ármannsson minnkaði muninn á 60. mínútu. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum jafnaði Andrezej Jakimczuk metin og tryggði Rangæingum framlengingu. Hún var markalaus og því var gripið til vítaspyrnukeppni en úrslitin réðust ekki fyrr en í þriðju umferð bráðabana þegar Rangæingar klikkuðu og KB tryggði sér 7-8 sigur.

Önnur umferð keppninnar fer fram í næstu viku og þá fær Þór Þorlákshöfn 1. deildarlið Fjölnis í heimsókn, Ægir mætir 1. deildarliði Víkings frá Ólafsvík einnig í Þorlákshöfn, Hamar sækir Augnablik heim og Árborg fær KB í heimsókn. Sigurliðin í þessum leikjum komast í 32-liða úrslit en þá bætast Pepsi-deildarliðin í pottinn.