Annar risasigur Uppsveita

Máni Snær Benediktsson skoraði tvö mörk fyrir Uppsveitir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir halda áfram að skrifa söguna en í annað skiptið í sumar vann félagið stærsta sigur sinn frá upphafi á Íslandsmótinu þegar Gullfálkinn magalenti á Flúðum.

Benedikt Fadel Farag kom Uppsveitum yfir strax á 1. mínútu leiksins og uppúr miðjum fyrri hálfleiknum komu mörkin svo á færibandi. Carlos Castellano breytti stöðunni í 2-0 áður en Benedikt skoraði annað mark sitt. Á eftir fylgdu mörk frá Pétri Geir Ómarssyni og Mána Snæ Benediktssyni og staðan var 5-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri en Gullfálkinn átti engin svör við góðum leik Uppsveita. Pétur Geir Ómarsson skoraði úr vítaspyrnu á 52. mínútu og Máni Snær breytti stöðunni í 7-0 á 60. mínútu. Carlos Castellano fékk sitt annað gula spjald sjö mínútum síðar en Uppsveitamenn létu það ekki á sig fá og Óliver Jóhannsson bætti áttunda markinu við á 89. mínútu.

Lokatölur 8-0 og Uppsveitir lyftu sér upp í 5. sæti B-riðilsins með sigrinum.

Fyrri grein„Aldrei planið að fara út í verslunarrekstur“
Næsta greinMagnaður sigur Þórsara