Annar áfangi stúkubyggingarinnar tekinn í notkun

Aðstöðuhluti nýju vallarstúkunnar á Selfossvelli var tekinn í notkun og vígður formlega í kvöld, fyrir leik Selfoss og Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu.

Áhorfendasvæðið í stúkunni var tekið í notkun í ágúst árið 2010 en nú hafa sex búningsklefar ásamt aðstöðu fyrir dómara og starfsmenn verið teknir í notkun inni í stúkubyggingunni.

Kjartan Björnsson, formaður íþrótta- og menningarnefndar, opnaði samkomuna og fór yfir byggingarsögu mannvirkisins sem Tómas Ellert Tómasson hannaði. Að því loknu blessaði sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson mannvirkið áður en Valdimar Bjarnason, framkvæmdastjóri Vörðufells, sem annaðist verkið, afhenti bæjaryfirvöldum lykla að aðstöðunni.

Kjartan tók við lyklunum og afhenti þá Kristínu Báru Gunnarsdóttur, formanni Ungmennafélags Selfoss, en félagið hefur umsjón með rekstri vallarsvæðisins. Þá afhenti Kjartan Guðmundu Brynju Óladóttur, fyrirliða kvennaliðs Selfoss, blómvönd með hamingjuóskum til allra þeirra iðkenda sem nota munu mannvirkið.

Stúkan er þó ekki fullbúin því í þriðja og síðasta áfanga er áformað að reisa þak yfir stúkuna alla ásamt aðstöðu fyrir fjölmiðla og fleiri á efstu hæðinni.

Fyrri greinEinn á slysadeild eftir bílveltu
Næsta greinSelfoss lá gegn toppliðinu