Anna Metta þrefaldur Íslandsmeistari

Anna Metta Óskarsdóttir (fyrir miðju) og Adda Sóley Sæland á fleygiferð í 60 m hlaupi. Ljósmynd/FRÍ

Lið HSK Selfoss varð í 4. sæti á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára sem fram fór í Laugardalshöllinni á dögunum.

HSK/Selfoss fékk 316,5 stig en FH-ingar urðu Íslandsmeistarar með 524,5 stig eftir harða keppni við Breiðablik. ÍR varð svo í 3. sæti.

Í stigakeppninni sigraði HSK/Selfoss í flokki 14 ára stúlkna og varð í 2. sæti í flokki 11 ára pilta og 13 ára pilta.

Anna Metta Óskarsdóttir varð þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 14 ára stúlkna en hún sigraði í langstökki, hástökki og þrístökki.

Þrjú HSK met voru sett á mótinu, öll í 4×200 m hlaupi í blönduðum sveitum. Þetta var í fyrsta sinn sem keppt er í þessar grein. Tólf ára sveit HSK/Selfoss setti met í 12 ára flokki og þrettán ára sveitin setti met bæði í 13 og 14 ára flokki.

Tólf ára sveitin hljóp á 2:14,81 mín en sveitina skipuðu Hildur Þórey Sigurðardóttir, Lilja María Axelsdóttir, Kristján Reynisson og Andri Fannar Smárason. Þrettán ára sveitin hljóp á 2:02,90 mín og þá sveit skipuðu Eðvar Eggert Heiðarsson, Magnús Tryggvi Birgisson, Magnea Furuhjelm Magnúsdóttir og Alexandría Ava Boulton.

Fyrri greinÞorvaldur og Hjálmar unnu brons á MÍ
Næsta grein66°Norður og Landsbjörg hanna saman húfu