Anna Garðarsdóttir í Selfoss

Miðjumaðurinn Anna Garðarsdóttir skrifaði í hádeginu í dag undir samning við Pepsi-deildarlið Selfoss í knattspyrnu.

Anna er 24 ára gömul og hefur leikið 85 leiki í meistaraflokki og skorað 33 mörk, þar af hefur hún spilað 40 leiki í efstu deild með Val, Aftureldingu og KR.

Hún er uppalin hjá Víkingi í Reykjavík og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki í 1. deildinni með HK/Víkingi. Hún skipti síðan yfir í Val árið 2007 og lék þar þangað til í fyrrasumar en tímabilin 2008 og 2011 var hún lánuð til Aftureldingar í Pepsi-deildinni.

Fyrir nýliðið keppnistímabil skipti hún yfir í KR og lék 14 leiki með Vesturbæingum í Pepsi-deildinni í sumar og skoraði sjö mörk.

“Mér líst mjög vel á að koma á Selfoss. Það er greinilega mikill uppgangur og metnaður hjá félaginu. Ég þekki Gunna frá því að hann þjálfaði mig hjá Val og hann er frábær og metnaðarfullur þjálfari þannig að ég er bara mjög spennt fyrir þessu,” sagði Anna í samtali við sunnlenska.is eftir undirritun samningsins.

anna_gardarsd290912gk_958386973.jpg
Anna Garðarsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl