Anna Björk semur við Selfoss

Anna Björk og Einar Karl Þórhallsson, formaður meistaraflokksráðs kvenna, staðfesta samninginn með um það bil tveggja metra millibili fyrir utan Kaffi krús. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Landsliðskonan Anna Björk Kristjánsdóttir hefur samið við knattspyrnudeild Selfoss og mun leika með liði félagsins í sumar. Hún kemur til félagsins frá PSV Eindhoven í Hollandi. Undirritunin fór fram á Kaffi Krús á Selfossi í morgun.

Anna Björk er 30 ára, reynslumikill miðvörður, sem á að baki 43 A-landsleiki fyrir Ísland. Anna Björk hóf sinn fer­il með KR en fór þaðan til Stjörn­unn­ar þar sem hún varð meðal annars þrefaldur Íslands- og bikarmeistari. Árið 2017 fór hún til Svíþjóðar og lék með Örebro og Lim­hamn Bun­keflo. Undanfarin tvö tímabil hefur hún leikið með PSV Eindhoven í hollensku úrvalsdeildinni.

„Mikill hugur í mér“
„Um leið og ég fór að tala við þjálfarana og fólkið í kringum liðið á Selfossi þá heyrði ég hvað það er mikill metnaður hérna og það heillaði mig. Það tala allir vel um Selfoss og það eru skýr markmið og mikill uppgangur hjá liðinu. Ég er líka að klára nám í sjúkraþjálfun og fæ tækifæri til þess að vinna við það í Mætti sjúkraþjálfun á Selfossi,“ segir Anna Björk.

„Mér líst gríðarlega vel á þjálfarana og hópinn og þetta byrjar vel, það er gott að komast á æfingu í sveitinni og rifja upp gamla tíma. Þetta eru dálítið skrítnar æfingar núna þar sem við náum ekki að vera allar saman í hóp en ég sé alveg hvað er í gangi hjá liðinu og þetta er mjög spennandi verkefni. Síðan ég fór erlendis að spila hef ég alltaf fylgst vel með Pepsi Max deildinni og veit hvað er í gangi hérna þannig að ég er mjög spennt að spila aftur á Íslandi. Um leið og það kom í ljós að ég væri ekki að fara út aftur þá er ég búin að telja niður mínúturnar að komast aftur út á völlinn. Um leið og maður fer af stað aftur þá finnur maður hvað fótboltinn hefur mikla þýðingu fyrir mann. Það er mikill hugur í mér og ég hlakka til að taka slaginn hérna á Selfossi.“

Anna Björk mætt á Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinMiðnæturopnun í Sundhöll Selfoss
Næsta greinMagnús hættur við forsetaframboð