Annað jafntefli Árborgar í röð

Knattspyrnufélag Árborgar gerði jafntefli við Létti á útivelli í A-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu í dag, 2-2, eftir að hafa verið 0-2 yfir í hálfleik.

Árborg stillti upp vængbrotnu liði í dag þar sem mikið var um forföll leikmanna í liðinu, m.a. vegna meiðsla.

Þrátt fyrir það komust þeir yfir eftir aðeins fjórar mínútur. Þá tók Almir Cosic, sem var kallaður óvænt inn í hópinn, aukaspyrnu og Kjartan Atli Kjartansson skoraði.

Gestirnir náðu svo tveggja marka forystu um miðjan fyrri hálfleik. Uppskriftin var sú sama og í fyrra markinu. Almir með aukaspyrnu og Kjartan skoraði.

Staðan 0-2 í hálfleik og Árborg í vænlegri stöðu.

Eftir um tíu mínútur í seinni hálfleik náðu heimamenn að minnka muninn eftir hornspyrnu.

Svo tíu mínútum síðar náðu Léttir að jafna metinn og aftur kom markið eftir hornspyrnu.

Liðin reyndu hvað þau gátu til að stela sigrinum en það gekk ekki og jafntefli niðurstaðan.

Árborg er nú með tvö stig eftir tvo leiki.

Fyrri greinJöfnunarmark í uppbótartíma
Næsta greinManni bjargað úr Ölfusá