Aníta og Tryggvi efnilegustu unglingarnir

Minningarmótið fimleikadeildar Umf. Selfoss um Magnús Arnar Garðarsson var haldið í íþróttahúsi Iðu fimmtudaginn 5. maí. Iðkendur á aldrinum 8-24 ára tóku þátt í þessum hluta mótsins.

Krakkarnir sýndu flotta fimleika á mótinu og var gaman að sjá framfarirnar eftir veturinn. Í lok mótsins voru árlegar viðurkenningar veittar.

Félagi ársins var valinn Haraldur Gíslason, viðurkenningu fyrir framfarir og ástundun fengu Rúnar Leví Jóhannsson og Hekla Björt Birkisdóttir og efnilegustu unglingarnir voru Aníta Sól Tyrfingsdóttir og Tryggvi Þórisson. Nýr bikar, gefinn af Garðari Garðarssyni og Valborgu Árnadóttur, foreldrum Magnúsar Arnars, var veittur liði ársins í yngri flokkum. Það var lið strákanna í Selfoss 22 sem vann bikarinn verðskuldað.

Meistaraflokkur Selfoss var sérstaklega heiðraður af stjórn deildarinnar sem og af bæjarstjórn Árborgar. Allt eru þetta glæsilegir fulltrúar ungu kynslóðarinnar og er óhætt að segja að framtíðin er björt.