Andy refsaði gömlu félögunum

Guðmundur Tyrfingsson skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Þróttur Vogum skildu jöfn í hörkuleik í 2. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld, 2-2.

Selfyssingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og hefðu getað gert út um leikinn á fyrstu 45 mínútunum. Það var skarð fyrir skildi að Hrvoje Tokic tók út leikbann í leiknum og Selfyssingar því ekki eins hættulegir í vítateig andstæðinganna og oft áður.

Það kom þó ekki að sök strax á 7. mínútu þegar Kenan Turudija skoraði gott skallamark eftir aukaspyrnu Þórs Llorens Þórðarsonar. Tveimur mínútum síðar skoraði Reda Maamar aftur fyrir Selfyssinga, en á einhvern óskiljanlegan hátt tókst dómara leiksins að dæma rangstöðu, sem var augljóslega rangur dómur.

Selfyssingar héldu áfram og áttu nokkrar álitlegar sóknir en tókst ekki að bæta við fleiri mörkum í fyrri hálfleik. 

Gestirnir úr Vogunum mættu mun sprækari inn í seinni hálfleikinn og strax á 51. mínútu jafnaði Pape Mamadou Faye metin með góðu skoti utan teigs. Eftir markið bökkuðu Þróttarar en Selfyssingum gekk illa að finna glufur á vörn þeirra. Það var líklega skrifað í skýin en Andy Pew, fyrrum leikmaður Selfoss, kom Þrótti svo yfir á 74. mínútu með þrumuskoti úr teignum uppúr hornspyrnu. Andy og Þróttararnir fögnuðu vel en Guðmundur Tyrfingsson þaggaði niður í þeim fjórum mínútum síðar með jöfnunarmarki. Eftir slæm mistök í vörn gestanna átti Ingi Rafn Ingibergsson þrumuskot í þverslána en frákastið fór á Guðmund sem gat ekki annað en skorað.

Fleiri urðu mörkin ekki en bæði lið fengu færi en markverðirnir stöðvuðu allt sem að marki kom og gerðu það vel.

Selfoss er nú í 2. sæti deildarinnar með 17 stig en Þróttur er í 9. sæti með 10 stig.

Fyrri greinAlvarlegt umferðarslys milli Hellu og Hvolsvallar
Næsta greinBarbára skaut Selfyssingum í undanúrslit