Andy Pew og Ingi Rafn semja við Selfoss – auk níu ungra leikmanna

Það var stór dagur hjá knattspyrnudeild Selfoss í dag þegar félagið samdi við Andy Pew og Inga Rafn Ingibergsson auk níu ungra leikmanna sem uppaldir eru hjá félaginu.

Andy Pew lék með Selfyssingum í 2. deildinni árin 2006 og 2007 en sneri svo aftur heim til Englands. Hann kom aftur til Íslands og lék með Árborg í 2. deildinni árið 2011 en skipti svo yfir í Hamar í 2. deildinni fyrir tímabilið 2012.

Þessi stóri og stæðilegi miðvörður hefur verið einn af bestu leikmönnum 2. deildarinnar undanfarin tvö keppnistímabil. Andy hóf ferill sinn hjá Everton en hann hefur einnig leikið með Tranmere Rovers, Chester City og Colwyn Bay.

“Ég hef beðið lengi eftir því að komast aftur í Selfosstreyjuna og er mjög stoltur af því að hafa samið við félagið. Mér líst vel á hópinn og það eiga fleiri leikmenn eftir að bætast við svo að ég er spenntur fyrir komandi keppnistímabil. Verkefni sumarsins er að koma liðinu aftur á þann stað sem það á að vera – í Pepsi-deildinni,” sagði Andy í samtali við sunnlenska.is.

Þá endurnýjaði Ingi Rafn Ingibergsson samning sinn við Selfoss en hann var lánaður til Ægis í fyrrasumar og var einn af markahæstu leikmönnum 3. deildarinnar. Ingi lék áður með Selfyssingum, til ársins 2005 þegar hann skipti yfir í ÍBV og lék með Eyjamönnum í fjögur tímabil.

Samningar Andy og Inga Rafns eru út tímabilið 2013.

Ungir og efnilegir heimamenn
Auk þeirra Andy og Inga Rafns skrifuðu níu ungir leikmenn undir samninga við Selfoss í dag, allir til þriggja ára.

Þeir Sindri Pálmason, Vigfús Blær Ingason og Gunnar Hallgrímsson voru allir að gera sína fyrstu samninga við félagið en auk þeirra framlengdi Selfoss samninga við Svavar Berg Jóhannsson, Ingva Rafn Óskarsson, Markús Árna Vernharðsson, Sindra Rúnarsson, Þorstein Daníel Þorsteinsson og Magnús Inga Sveinsson. Allir skrifuðu þeir undir samning sem gildir út keppnistímabilið 2015.

Flestir þessara leikmanna eru enn í 2. flokki Selfoss og ljóst að einhverjir þeirra munu fá tækifæri með meistaraflokki í 1. deildinni í sumar.

Fyrri greinInnbrot og skemmdarverk á Selfossvelli
Næsta greinHugvekja um illa meðferð dýra og umgengni á sveitabæjum