Andri Páll fór á kostum

Andri Páll Ásgeirsson fór á kostum og spilaði á 68 höggum (-2) og fékk 48 punkta á Vallaropnunarmóti Golfklúbbs Selfoss sem fram fór á Svarfhólsvelli í gær.

Andri var með 11.1 í forgjöf fyrir mótið og fór niður í 8,7 eftir eftir þessa frábæru spilamennsku. Andri Páll er partur af Framtíðarhópi GOS og er ný kominn úr æfingarferð hópsins til Spánar. Hann hefur verið mjög duglegur að æfa síðustu árin og má segja að hann búi á vellinum.

Áður en mótið hófst mættu rúmlega 30 manns í vorhreinsun á vellinum þar sem fólk tíndi rusl, skar kanta og lagaði beð og stíga. Eftir súpu og brauð í hádeginu var síðan blásið til keppni.

Í 2. sæti varð einn besti hestamaður landsins, Sigursteinn Sumarliðason með 41 punkt og þriðji Bergur Sverrisson með 38 punkta. Þrír efstu í mótinu hafa allir verið duglegir við æfingar í vetur og er það greinilega að skila sér.

Á mótinu voru teknir í notkun teigar á 7. og 8. braut sem voru lagaðir í haust og segir Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri klúbbsins, að flatirnar á vellinum komi frábærlega undan vetri og stefni í að völlurinn verði í sínu besta formi fyrr en á venjulegu sumri.

Fyrri greinHjörtur fékk menningar-viðurkenningu
Næsta greinSkoðar hvernig fólk fer í sund