Andri Már níundi í höggleiknum

Andri Már Óskarsson, Golfklúbbnum Hellu, lauk keppni í níunda sæti á Íslandsmótinu í höggleik sem lauk á Strandarvelli síðdegis í dag.

Andri lék fjórða hringinn á 68 höggum, tveimur höggum undir pari og lauk keppni á fjórum yfir pari alls.

Hlynur Geir Hjartarson, GOS, náði loksins góðum hring í dag og var á einum undir en hann lauk keppni í 17.-20. sæti á tíu höggum yfir pari alls.

Sigurþór Jónsson, GOS, endaði í 28.-30. sæti á þrettán yfir pari eftir hringina fjóra en í dag lék hann á fjórum höggum yfir pari.

Haraldur Franklín Magnús, GR, og Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, sigruðu í karla- og kvennaflokki eftir æsispennandi lokahring í báðum flokkum.

Mótshaldið á Strandarvelli gekk geysilega vel en þetta er í fjórða skipti sem mótið er haldið á vellinum og var almenn ánægja með völlinn og framkvæmd mótsins.