Andri Már í góðum málum á fyrsta hring

Andri Már Óskarsson, Golfklúbbnum Hellu, er í 2.-3. sæti að loknum fyrsta hring á Íslandsmótinu í höggleik sem hófst á heimavelli hans, Strandarvelli við Hellu, í morgun.

Andri Már lék hringinn í dag á 67 höggum, þremur undir pari. Hann gaf í á seinni níu holunum og var fjórum undir fyrir síðustu brautina þar sem hann fékk skolla. Andri Már er jafn Haraldi Franklín Magnús, GR, en Rúnar Arnórsson, GK, leiðir keppnina á fjórum höggum undir pari.

Sigurþór Jónsson, Golfklúbbi Selfoss, er í 11.-14. sæti á pari vallarins en Hlynur Geir Hjartarson, GOS, var ekki að finna sig í dag og er í 35.-46. sæti. Hlynur lék á fjórum höggum yfir pari í dag. Hann var kominn þrjá yfir að loknum sex holum en sótti í sig veðrið á seinni níu holunum allt þangað til hann fékk „snjókarl“ á fimmtándu braut, sem er par 5, en Hlynur lék hana á 8 höggum.

Keppni hefst aftur kl. 7:30 í fyrramálið og að loknum morgundeginum verður fjöldi kylfinga skorinn niður í 72 í karlaflokki og 18 í kvennaflokki.

Fyrri greinNdiaye lánaður til Hamars
Næsta greinMótokrossdeildin orðin fyrirmyndardeild