Andri Már íþróttamaður ársins í Rangárþingi eystra

Andri Már Óskarsson, kylfingur úr Golfklúbbi Hellu, var valinn íþróttamaður ársins 2015 í Rangárþingi eystra. Valinu var lýst á 17. júní hátíðarhöldunum á Hvolsvelli.

Andri Már er fæddur 1991 og hefur leikið golf með GHR í mörg ár. Hann er klúbbmeistari GHR og tók þátt í Eimskipsmótaröðinni þar sem hann tók þátt í öllum mótum sem í boði voru fyrir utan eitt. Hann varð í 5. sæti á Íslandsmótinu í höggleik og í 9. sæti á Íslandsmótinu í holukeppni. Hann náði 9. sæti á stigalista Golfsambands Íslands.

Andri Már er einn af bestu kylfingum landsins en hann hefur stundað íþróttina frá unga aldri, æfir og spilar mikið, kemur vel fyrir og er yfirvegaður golfari hvort sem er innan eða utan vallar.

Sú hefð hefur skapast á undanförnum árum að útnefna íþróttamann ársins í Rangárþingi eystra á 17. júní. Íþróttafélögin í sveitarfélaginu tilnefna iðkendur frá sínu félagi og auk þess hefur íþrótta- og æskulýðsfulltrúi rétt á að tilnefna einstakling. Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefnd velur íþróttamann ársins úr þeim hópi en í ár voru tilnefnd, auk Andra Más, knattspyrnufólkið Hjörvar Sigurðsson, KFR, og Hrafnhildur Hauksdóttir, Umf. Selfoss, og frjálsíþróttamaðurinn Þorsteinn Magnússon, Dímon.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Reiðhjólamaður handleggsbrotnaði
Næsta greinSuðurlandsvegi lokað vegna umferðarslyss