Andri Már fjórði á heimavelli

Andri Már Óskarsson, Golfklúbbnum Hellu, varð í fjórða sæti á Egils-Gullmótinu, fyrsta móti Eimskipsmótaraðarinnar í golfi, sem fram fór á Strandarvelli við Hellu um helgina.

Andri Már lék hringina þrjá samtals á tveimur höggum yfir pari, fyrstu tvo hringina á 71 höggi en síðasta hringinn í dag á 70 höggum, sem er par vallarins.

Fannar Ingi Steingrímsson, Golfklúbbi Hveragerðis, lék einnig á parinu í dag en hann varð í 8. sæti á mótinu á fimm höggum yfir pari.

Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss, var þriðji Sunnlendingurinn í topp tíu á mótinu en hann lauk keppni í 9.-11. sæti á sex höggum yfir pari. Hlynur var meðal efstu manna að loknum fyrsta hring, á tveimur höggum undir pari, en fann ekki taktinn á öðrum hring sem hann lék á sex höggum yfir pari.