Andri Már Óskarsson, Umf. Selfoss, tók þátt í fyrsta frjálsíþróttamóti ársins í Kaplakrika í Hafnafirði síðastliðinn fimmtudag. Hann keppti í 2.000 metra hlaupi og hljóp á tímanum 7:42,56 mín. og bætti þar með 18 ára gamalt Íslandsmet í greininni í 13 ára flokki, en metið átti Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA og var 8:07,14 mín.
Tími Andra Más er um leið nýtt HSK met í 13 ára og 14 ára flokki og bæting á tveggja ára gömlu HSK meti Sæmundar Inga Jónssonar Íþr.f. Garpi í flokki 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára, 20-22 ára og karlaflokki. Met Sæmundar Inga var 9:35,50 mín.
Andri setti sem sagt eitt Íslandsmet og sjö HSK met í hlaupinu, glæsilegur árangur það! Næst verður keppt í þessari vegalengd á MÍ 15-22 ára um helgina, reyndar einungis í 15 ára flokki.

