Andri Björn í Selfoss – Ingvi Rafn í Ægi

1. deildarlið Selfoss í knattspyrnu hefur fengið framherjann Andra Björn Sigurðsson að láni frá Þrótti. Þá hefur miðjumaðurinn Ingvi Rafn Óskarsson verið lánaður í 2. deildarlið Ægis.

Andri Björn hefur leikið með Þrótti undanfarin tvö ár en hann hefur skoraði þrjú mörk fyrir liðið í deild og bikar í sumar. Í fyrra skoraði hann níu mörk fyrir Þrótt í 1. deildinni. Andri er 24 ára gamall og á einnig að baki leiki með ÍR og Gróttu.

Hann er kominn með leikheimild með Selfyssingum en samkvæmt heimildum sunnlenska.is verður hann ekki í leikmannahópi liðsins í kvöld, þegar Selfoss mætir Þrótti. Þróttarar fóru fram á að hann myndi ekki spila leikinn gegn sínum gömlu félögum.

Þá hafa Selfyssingar lánað miðjumanninn Ingva Rafn Óskarsson í Ægi. Ingvi Rafn hefur komið við sögu í átta deildarleikjum Selfyssinga í sumar en að undanförnu hefur hann ekki verið í byrjunarliðinu.

Eins og sunnlenska.is hefur greint frá hafa Selfyssingar einnig fengið til liðs við sig varnar- og miðjumanninn Guðmund Friðriksson frá Breiðabliki. Hann kemur til með að fylla þau skörð sem myndast í vörn Selfossliðsins þegar Bjarkarnir, Aðalsteinsson og Benediktsson, hverfa aftur til náms í Bandaríkjunum núna í byrjun ágúst.

Fyrri greinStrákarnir okkar: Guðmundur skoraði sigurmarkið
Næsta greinHálfvitarnir halda tvenna tónleika á Flúðum