Andrea Ýr í Selfoss – Valorie kemur aftur

Selfyssingar hafa fengið mjög góðan liðsstyrk í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu en Andrea Ýr Gústavsdóttir hefur gengið í raðir félagsins frá ÍBV.

Andrea Ýr er 22 ára og spilaði 15 leiki í Pepsi-deildinni með ÍBV á síðustu leiktíð. Hún er uppalin í Val en hefur einnig leikið með Aftureldingu og Breiðabliki og á að baki fjölda leikja í efstu deild. Auk þess hefur hún leikið sautján landsleiki með U19 ára landsliði Íslands og tíu U17 landsleiki.

Hún er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað nokkrar stöður á vellinum.

Að sögn Gunnars Rafns Borgþórssonar, þjálfara Selfoss, eru Selfyssingar með nokkur járn í eldinum í leikmannamálum og Gunnar staðfesti við sunnlenska.is að Valorie O‘Brien, sem var einn besti leikmaður liðsins síðasta sumar, mun koma aftur til landsins í mars og leika með Selfyssingum á komandi leiktíð.

Fyrri greinEyjólfur og Hlekkur sigruðu
Næsta greinFSu tapaði fyrir botnliðinu