Andlaust í kveðjuleik Alfreðs

Brenna Lovera sækir að marki Vals í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði illa í lokaumferð Pepsi Max deildar kvenna í knattspyrnu þegar þær heimsóttu Val að Hlíðarenda. Valur hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn og lyfti meistarabikarnum að leik loknum.

Selfyssingar stóðu heiðursvörð í upphafi leiks þegar Íslandsmeistararnir gengu inn á völlinn. Selfoss byrjaði leikinn af krafti og sýndi Íslandsmeisturunum ekki frekari virðingu. Valskonur urðu hins vegar á undan að skora þegar fyrirgjöf frá hægri hafnaði í netinu. Leikurinn hélst áfram í jafnvægi eftir það en Selfyssingum gekk ekki vel að skapa sér færi. Á 24. mínútu slapp Brenna Lovera innfyrir en náði ekki góðu skoti, Valskonur sneru vörn í sókn, brunuðu upp völlinn og skoruðu 2-0.

Þá má segja að botninn hafi dottið algjörlega úr leik Selfyssinga sem misstu alla trú á verkefninu. Andleysið var algjört og Valur skoraði auðveldlega þrjú mörk til viðbótar á síðasta korterinu í fyrri hálfleik.

Staðan var 5-0 í hálfleik og þær urðu lokatölur leiksins. Seinni hálfleikurinn var algjörlega tíðindalaus, enda úrslitin ráðin.

Selfoss situr í 4. sæti deildarinnar með 25 stig en gæti misst Stjörnuna uppfyrir sig þegar lokaumferðinni lýkur á sunnudaginn.

Leikurinn í kvöld var kveðjuleikur Alfreðs Elíasar Jóhannssonar, sem segir nú skilið við Selfoss eftir að hafa þjálfað kvennaliðið undanfarin fimm ár.

Fyrri greinHamarsmenn stórhuga fyrir komandi tímabil
Næsta greinMílan og Selfoss úr leik í bikarnum