Anderson til FSu

Körfuknattleiksfélag FSu hefur gengið frá samningi við erlendan leikmann fyrir komandi átök í Dominos deild-karla í vetur. Leikmaðurinn heitir Chris Anderson og er rúmlega tveir metrar á hæð.

Anderson spilaði fyrir Louisiana Tech háskólann og var þar í byrjunarliðinu í öllum leikjum liðsins á sínu síðasta tímabili þar og skoraði rúm 12 stig í leik og tók 6 fráköst í mjög sterkri deild.

Þetta verður fyrsta ár leikmannsins í Evrópu en hann á eitt ár að baki sem atvinnumaður í Mexíkó en hann er frá Michigan ríki í Bandaríkjunum. Erik Olson þjálfari FSu er þessa dagana í Bandaríkjunum þar sem hann hefur verið að leita að rétta leikmanninum og hann hafði þetta að segja um Anderson:

„Chris kemur til okkar með góð meðmæli frá þjálfurum sínum og þá sérlega frá Michael White sem þjálfaði hann í gegnum háskólann en hefur nú tekið við starfi Florida University af Billy Donovan sem hefur tekið við Oklahoma Thunder í NBA deildinni. Í gegnum samband okkar við Michael White gátum við skoðað Chris vel en hann spilaði stórt hlutverk í sigursælu liði Louisiana Tech og er þekktur fyrir að aðlagast vel mismunandi hlutverkum, hann er stór og kraftmikill íþróttamaður. Það sem heillaði mig mest við hann er hversu mikinn kraft hann setur í bæði vörn og sókn. Við erum vongóðir um að Chris eigi eftir að passa vel inn hjá FSu og í íslenskan körfubolta.“

Fyrri greinSelfoss fékk heimaleik í undanúrslitunum
Næsta greinFramtíðar blaðamenn