„Ánægður með góðan baráttu sigur“

„Þetta er erfiður völlur að koma á, þannig að ég er fyrst og fremst ánægður með góðan baráttu sigur,“ sagði Gunnar Guðmundsson, þjálfari Selfoss, eftir að lið hans sigraði Víking í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld, 1-2.

Víkingar, sem voru á heimavelli, byrjuðu leikinn betur og áttu nokkur góð færi fyrri hluta fyrri hálfleiks. Það kom því gegn gangi leiksins þegar Ingólfur Þórarinsson kom Selfyssingum yfir eftir 27 mínútna leik.

Ingólfur fékk boltann rétt fyrir framan vítateiginn, fór framhjá einum leikmanni Víkinga og hamraði boltann svo ofarlega í hornið fjær – fallegt mark hjá söngvaranum.

„Við áttum í smá vandræðum með að loka svæðum í upphafi, en það breyttist eftir að Ingó skoraði,“ sagði Gunnar um leik liðsins.

„Á sama tíma náðum við að skipuleggja okkur betur og loka betur á svæðin þannig að þeir áttu erfiðara með að finna leiðir í gegnum vörnina okkar. Sérstaklega í seinni hálfleiknum, þá náðum við að loka mjög vel og gáfum fá færi á okkur. Ég held að í heildina höfum við átt fleiri færi heldur en þeir.“

Staðan var 0-1 fyrir Selfoss í leikhléi, en strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks kom annað mark. Bernard Brons tók langt innkast sem fór af höfðinu á Javier Zurbano til Magnúsar Inga Einarssonar og hann skallaði boltann í markið, 0-2.

Eftir þetta voru Selfyssingar betri aðilinn á vellinum og heimamenn virtust slegnir út af laginu. Það kom því eins og köld tuska framan í leikmenn Selfoss þegar Magnús Ingi fékk að líta sitt annað gula spjald og því rautt frá nafna sínum Þórissyni, dómara leiksins.

Dómurinn þótti strangur en Magnúsi var ekki haggað, Magnús fór í sturtu. Strax í kjölfarið minnkuðu heimamenn muninn, 1-2.

Lokamínúturnar voru langar fyrir Selfyssinga en þeir náðu að halda forystunni og tryggja sér fyrsta sigurinn í deildinni í sumar.

Gunnar vill meina að liðið sé á réttri leið þrátt fyrir að mikil vinna sé enn eftir. „Ég held að við séum að ná betri tökum á varnarleiknum, en við þurfum að bæta okkur í því að halda boltanum betur og útfæra aðeins sóknarleikinn hjá okkur. Það vantaði aðeins upp á það í dag,“ sagði Gunnar sem tefldi fram nýjum leikmanni í byrjunarliðinu í kvöld, Sindra Snæ Magnússtni, lánsmanni frá Breiðabliki.

„Hann sýndi það í dag að hann er hörku góður leikmaður. Hann skilaði flottri vinnu og stimplaði sig mjög vel inn í dag,“ sagði þjálfarinn að lokum.

Fyrri greinStofna styrktarreikning fyrir Gauta
Næsta greinKlarínettukórinn í Skálholti í dag