Alvöru skellur á heimavelli

Kalt er það Klara! Einar Sverrisson þakkar Hergeiri Grímssyni fyrir viðskiptin áður en hann gengur af velli með rautt spjald. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði illa á heimavelli gegn Stjörnunni í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

Leikurinn var jafn í rúmar tuttugu mínútur en Selfyssingar skoruðu ekki mark á síðustu átta mínútum fyrri hálfleiks og þar breytti Stjarnan stöðunni úr 10-10 í 10-15, sem voru hálfleikstölur.

Byrjunin á seinni hálfleik var ferleg hjá Selfyssingum, Stjarnan náði átta marka forystu og Selfyssingar létu reka sig útaf trekk í trekk. Á tímabili stóðu þrír Selfyssingar vörnina og skömmu síðar fékk Einar Sverrisson rauða spjaldið fyrir að brjóta á fyrrum félaga sínum, Hergeiri Grímssyni.

Munurinn jókst jafnt og þétt í seinni hálfleik og í lokin skildu þrettán mörk liðin að, lokatölur 22-35.

Guðmundur Hólmar Helgason var markahæstur Selfyssinga með 5 mörk ásamt Ísak Gústafssyni sem skoraði 5/1 mörk. Einar Sverrisson skoraði 4/1, Hannes Höskuldsson og Atli Ævar Ingólfsson 3 og þeir Sæþór Atlason og Tryggvi Sigurberg Traustason skoruðu eitt mark hvor.

Vilius Rasimas varði 13/2 skot í marki Selfoss og var með 32% markvörslu og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 1 skot og var með 13% markvörslu.

Selfyssingar eru nú komnir niður í 7. sæti deildarinnar, með 9 stig, en Stjarnan er í 5. sæti með 11 stig.

Fyrri greinÞrjú HSK met á Gaflaranum
Næsta grein„Gríðarlega þakklát fyrir móttökurnar“