Alvöru drama í Suðurlandsslagnum

Einar Sverrisson stekkur upp og skorar 1000. mark sitt fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og ÍBV gerðu 31-31 jafntefli í alvöru Suðurlandsslag í Olísdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld.

Leikurinn var í járnum allan tímann og stærstan hluta hans var munurinn aldrei meiri en eitt mark, þar sem liðin skiptust á um að vera skrefinu á undan.

Á 25. mínútu kom Einar Sverrisson Selfyssingum í 10-9 með sínu þúsundasta marki fyrir Selfoss og hlaut hann standandi lófaklapp frá stúkunni og starfsmenn deildarinnar höfðu útbúið sérstaka mynd af Einari sem birtist á stigatöflunni þegar hann skoraði markið merkilega.

Staðan var 13-11, Selfyssingum í vil, í leikhléi en Eyjamenn jöfnuðu strax í seinni hálfleik og eftir það var baráttan í algleymingi.

Staðan var 31-31 þegar rúm mínúta var eftir af leiknum og bæði lið höfðu tækifæri til þess að skora sigurmarkið en glutruðu niður boltanum í lokasóknunum.

Einar Sverrisson var besti maður vallarins. Hann var markahæstur Selfyssinga með 10/3 mörk, Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 5 og átti 6 stoðsendingar, Ragnar Jóhannsson og Guðjón Ómar Baldursson skoruðu 4, Richard Sæþór Sigurðsson 3, Ísak Gústafsson og Elvar Elí Hallgrímsson 2 og Hannes Höskuldsson 1.

Einar Sverrisson og Sverrir Pálsson voru feiknasterkir í vörninni, báðir með 5 lögleg stopp, Einar með tvö blokkuð skot og Sverrir eitt.

Vilius Rasimas varði 13 skot í marki Selfoss og var með 29,5% markvörslu.

Selfyssingar eru í 9. sæti deildarinnar með 3 stig en ÍBV í 3. sæti með 4 stig.

Fyrri greinÖryggi gangandi vegfarenda eykst til muna
Næsta greinÞórsarar um miðja deild – Hamar og Selfoss í toppbaráttu