Alveg að verða uppselt í frjálsíþróttaskólann

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ verður haldinn á Selfossi dagana 28. júní til 2. júlí næstkomandi og er það í sjötta skipti sem skólinn er í umsjá HSK.

Frjálsíþróttaskólinn er ætlaður ungmennum á aldrinum 11 – 18 ára. Þau koma saman eftir hádegi á sunnudegi en skólanum lýkur á hádegi á fimmtudegi í sömu viku. Aðaláhersla er lögð á kennslu í frjálsíþróttum. Auk frjálsíþrótta er farið í sund, leiki, óvissuferðir, haldnar kvöldvökur o.fl. Þjálfarar eru Fjóla Signý Hannesdóttir og Ágústa Tryggvadóttir.

Skráning í skólann hefur aldrei farið eins vel af stað en eftir að Ágústa og Fjóla hófu skipulagningu skólans í mars sl. hafa þær sjálfar verið að taka á móti skráningum. Þó að skráning í gegnum UMFÍ sé ekki enn hafin eru nú þegar 27 krakkar búnir að skrá sig og aðeins þrettán pláss laus.

Útlit er fyrir að færri muni komast að en vilja en tekið verður við skráningum eftir að skólinn er fullskipaður og krakkar settir á biðlista. Reynt verður að fjölga starfsmönnum skólans til þess að geta tekið á móti öllum þeim börnum sem vilja koma í skólann.

Þátttaka í skólanum hefur aukist umtalsvert á milli ára. Uppselt hefur verið í skólann síðustu tvö ár en hingað til hafa allir komist að sem vilja. Bæði krakkar og foreldrar hafa verið afar ánægð með skólann sem má rekja til mikilla vinsælda og vaxandi eftirspurnar.

Frekari upplýsingar um frjálsíþróttaskólann á Selfossi er hægt að fá í tölvupósti hjá Fjólu Signýju á netfanginu fjolasigny@gmail.com og hjá Ágústu á agustat@hotmail.com.

Hægt er að fylgjast með skólanum á facebooksíðunni Frjálsíþróttaskóli 2015 – Selfoss.

Fyrri greinOpnun tilboða í Selfosslínu og Hellulínu
Næsta greinKosta lýsingu í kringum skóla