„Álmaðurinn er kominn til að vera“

Hörður Harðarson, sjúkraflutningamaður á Kríumýri í Flóahreppi, fagnaði 55 ára afmæli sínu í gær á sérstakan hátt. Hörður synti 1 km, hjólaði 36,5 km og hljóp 6,5 km.

Hörður blés til þríþrautarkeppni þar sem ellefu manns tóku þátt í sundi, hjólreiðum og hlaupi í gegnum fjögur sveitarfélög á Suðurlandi. Keppnin hófst í sundlaug HNLFÍ í Hveragerði, þaðan var hjólað niður Ölfus, yfir Óseyrarbrú og að Votmúlavegi í Sandvíkurhreppi. Þá var farið af hjólunum og hlaupið heim á Kríumýri.

Hörður nefnir keppnina „Álmanninn“ en árlega er þríþrautarkeppnin „Járnmaðurinn“ haldin í Evrópu, þar sem um töluvert lengri vegalengdir er að ræða. Þar hefur Selfyssingurinn Sigmundur Stefánsson keppt og hann var fyrstur í mark í „Álmanninum“ í gær.

„Fyrir ári síðan ætlaði ég að hlaupa hérna 300 metra út í hesthús og ég gat það ekki. Ég þurfti að fara á hálfgerðu tölti – og ég hugsaði með mér, nei hingað og ekki lengra,“ segir Hörður aðspurður um tilefni þríþrautarinnar. „Ég er gamall íþróttamaður en ég lenti í slysi fyrir 15 árum og þá hætti ég að hlaupa og hreyfa mig. Síðan réði ég mig í sjúkraflutningana og þurfti þá að fara í þrekpróf og stunda líkamsrækt. Mér finnst svo leiðinlegt að hlaupa og æfa mig þannig að til að hafa einhverja hvatningu ákváðum ég og Jóhann Már, félagi minn í sjúkraflutningunum, að búa til þríþrautarkeppni. Takmarkið var að taka þrautina fyrir 55 ára afmælið mitt en niðurstaðan var að gera þetta á afmælisdaginn.“

Hörður hringdi í tvo félaga sína til að fara með sér í þrautina en það vatt upp á sig og endaði með ellefu manna hóp. „Þetta er byrjunin á einhverju stóru. Ég hefði örugglega getað fengið hundrað þátttakendur ef ég hefði auglýst þetta en stefnan er að gera þetta að árlegum viðburði og tengja hann þá jafnvel við hátíðina Fjör í Flóa,“ segir Hörður.

Og afmælisbarnið var ánægt þegar hann var kominn í mark. „Þetta er bara æðislegt. Ég er í skítaformi en þetta er allt að koma. Það var erfiðast að fara af hjólinu og byrja að hlaupa en annars gekk þetta vel – ég var í það minnsta ekki síðastur. Ég var með rosalega flotta stráka fyrir framan mig og eftir ár þá ætla ég að vinna þá alla,“ segir Hörður hlæjandi. „Sigmundur vann núna og hann er maðurinn sem við hinir þurfum að ná. Ég þarf að setja upp mynd af honum hérna inni á Kríu með tímanum sem þarf að slá. Ég bæti hann á næsta ári,“ segir Hörður Harðarson, léttur að lokum.