„Allt of mikil virðing“

„Við þurfum að fara að kveikja á okkur aftur. Þó að það séu komin sjö stig í hús þá gefur það okkur ekki neitt,“ sagði markaskorarinn Sævar Þór Gíslason, svekktur í leikslok.

Selfyssingar léku gegn Keflvíkingum í Njarðvík í kvöld og sköpuðu afskaplega lítið í 2-1 tapleik. „Við vorum lélegir í fyrri hálfleik og bárum allt of mikla virðingu fyrir þeim. Þetta var allt of mikil virðing. Við komumst yfir og þá er bara eins og við bökkum, undan vindi, og ætlum að halda. Ég er ekki sáttur við þetta,“ sagði Sævar Þór í samtali við sunnlenska.is.

„Við komum hingað með eitt stig og ætluðum að sækja tvö til viðbótar. Planið var að liggja til baka og sækja hratt en það var erfitt í svona miklum vindi. Við áttum að pressa meira á þá í fyrri hálfleik en við komum okkur ekki í gang,“ segir Sævar.

Leikur Selfyssinga skánaði síðustu 25 mínúturnar en það dugði ekki til. „Við héldum boltanum meira á lokakaflanum en það vantaði að skapa meira og láta reyna á þennan dreng í markinu hjá þeim.“

Í eina skiptið sem markvörður Keflvíkinga þurfti að taka á honum stóra sínum missti hann boltann fyrir fæturna á Sævari og Selfoss uppskar mark. „Maður fær auðvitað ekki auðveldari færi en þetta. En við töluðum um það fyrir leik að keyra á markmanninn, hann er 18 ára og með enga reynslu þannig að það mátti alveg eiga von á þessu. Ég tók sénsinn og hann missti boltann,“ sagði Sævar að lokum.

Fyrri greinEldur í mjólkurbúinu
Næsta greinSpyrja biskup um fordæmisgildi ákvörðunar um Selfosskirkju