Allt liðið komst á blað

Kristrún Ríkey Ólafsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór vann sannfærandi sigur á botnliði ÍR þegar liðin mættust í Breiðholtinu í kvöld í 1. deild kvenna í körfubolta.

Leikurinn fór hægt af stað. Hamar/Þór skoraði sex fyrstu stigin en staðan eftir 1. leikhluta var 11-12. Þær sunnlensku kveiktu almennilega á sér í 2. leikhluta og náðu góðu forskoti fyrir leikhlé, 22-46. Eftirleikurinn var nokkuð auðveldur, forskot Hamars/Þórs jókst jafnt og þétt í seinni hálfleik og lokatölur urðu 51-84.

Allir leikmenn Hamars/Þórs komust á blað í leiknum í kvöld. Jóhanna Ágústsdóttir var stigahæst með 14 stig, Emma Hrönn Hákonardóttir og Aniya Thomas skoruðu báðar 12 stig, Gígja Rut Gautadóttir 9, Þóra Auðunsdóttir, Hildur Gunnsteinsdóttir og Tijana Raca skoruðu allar 8 stig, Eva Margrét Þráinsdóttir 7 og Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skoraði 6 stig og – haldið ykkur fast – tók 20 fráköst.

Hamar/Þór er í 5. sæti deildarinnar með 14 stig en ÍR er á botninum án stiga.

Fyrri greinUmferðarteppa við Reynisfjall
Næsta greinOpið fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóðinn