Allt í skrúfuna í uppbótartímanum

Markaskorarinn Frosti Brynjólfsson veður upp vinstri kantinn í dag. sunnlenska.is/Benedikt Hrafn Guðmundsson

Selfyssingar misstu unninn leik úr höndunum í uppbótartímanum þegar Völsungur kom í heimsókn á Selfossvöll í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 1-2.

Fyrri hálfleikurinn var heldur tíðindalítill, bæði lið fengu hálffæri en inn vildi boltinn ekki. Staðan var 0-0 í hálfleik.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og virtist ætla að valta yfir gestina. Frosti Brynjólfsson kom þeim yfir strax á 48. mínútu eftir mikið klafs í teignum og á næsta korterinu óðu Selfyssingar í færum en Ívar Þórhallsson, markvörður Völsungs, sem var besti maður vallarins, hélt sínum mönnum inni í leiknum.

Á 71. mínútu fékk Selfoss vítaspyrnu þegar brotið var á Aroni Vokes innan teigs. Jón Vignir Pétursson fór á punktinn en Ívar varði frá honum.

Það var ekki fyrr en í blálokin að Völsungar svöruðu fyrir sig. Á 90. mínútu fengu þeir dauðafæri sem Robert Blakala varði en þremur mínútum síðar varð Eysteinn Ernir Sverrisson fyrir því óláni að hreinsa boltann í eigið net og staðan orðin 1-1. Dramað var ekki búið því á fimmtu mínútu uppbótartímans fékk Völsungur vítaspyrnu. Þrátt fyrir mikil mótmæli Selfyssinga varð dómnum ekki haggað og úr vítaspyrnunni skoruðu gestirnir sigurmark leiksins.

Eftir þrjár umferðir eru Selfoss og Völsungur í 8.-9. sæti deildarinnar með 3 stig, en þetta var fyrsti sigur Völsungs í sumar.

Fyrri greinÞrenna Adeyemo sökkti Kormáki/Hvöt
Næsta greinSóttu slasaðan ferðamann í Kerið