Allt í járnum í lokaumferðinni

Richard Sæþór Sigurðsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og FH skildu jöfn, 31-31, í lokaumferð Olísdeildar karla í handbolta í Kaplakrika í Hafnarfirði í dag.

Selfoss hafði frumkvæðið stærstan hluta fyrri hálfleiksins og leiddi 4-7 eftir tíu mínútna leik. Munurinn varð mestur fimm mörk og staðan var 14-19 í hálfleik. FH minnkaði forskotið í upphafi seinni hálfleiks en Selfyssingar héldu forystunni allt þar til átta mínútur voru eftir að FH jafnaði 28-28. Eftir það var jafnt á öllum tölum en bæði lið fengu sókn á lokamínútunni til að klára leikinn með sigri.

Tryggvi Sigurberg Traustason skoraði 5/3 mörk fyrir Selfoss og Richard Sæþór Sigurðsson 5 úr jafn mörgum skotum. Hans Jörgen Ólafsson skoraði 4, Karolis Stropus og Sölvi Svavarsson 3, Ragnar Jóhannsson, Haukur Páll Hallgrímsson og Elvar Elí Hallgrímsson 2 og þeir Guðjón Baldur Ómarsson, Gunnar Kári Bragason, EInar Sverrisson, Hannes Höskuldsson og Sæþór Atlason skoruðu allir 1 mark.

Alexander Hrafnkelsson varði 13 skot í marki Selfoss og var með 43% markvörslu.

Það var ljóst fyrir leikinn að FH myndi enda í 2. sæti deildarinnar og Selfoss í því 7. þannig að það verður hlutskipti þessara liða að mætast í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. Úrslitakeppnin mun hefjast næstkomandi laugardag en leikjaniðurröðunin liggur ekki fyrir.

Fyrri greinNanna ráðin skrifstofustjóri UTU
Næsta greinGlötuð tækifæri til framtíðar í Rangarþingi eystra, Mýrdal og Skaftárhreppi