Selfyssingar náðu í sitt fyrsta stig í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld þegar liðið heimsótti ÍR í Breiðholtið.
Selfoss byrjaði af krafti og leiddi 2-6 eftir rúmar níu mínútur. Forskot Selfyssinga varð mest sex mörk í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 12-18.
ÍR-ingar minnkuðu forskot Selfyssinga jafnt og þétt í seinni hálfleik og þegar rúmar sjö mínútur voru eftir af leiknum jöfnuðu þeir 30-30. Jafnt var á öllum tölum eftir það en ÍR jafnaði 33-33 þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. Hvorugu liðinu tókst að nýta lokasóknir sínar og niðurstaðan varð jafntefli.
Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 7/3 mörk, Haukur Páll Hallgrímsson skoraði 6, Elvar Elí Hallgrímsson 4, Sölvi Svavarsson, Valdimar Örn Ingvarsson og Tryggvi Sigurberg Traustason skoruðu allir 3 mörk, Gunnar Kári Bragason og Anton Breki Hjaltason 2 og þeir Jónas Karl Gunnlaugsson og Jason Dagur Þórisson skoruðu 1 mark hvor.
Alexander Hrafnkelsson varði 16 skot í marki Selfoss og var með 33,3% markvörslu.

