Allt í járnum hjá Hamri og Árborg

Markaskorarinn Aðalgeir Friðriksson með boltann í leiknum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Árborg léku í kvöld fyrri leiki sína í 8-liða úrslitum 4. deildar karla í knattspyrnu. Hamar tók á móti Kríu í Hveragerði og á Selfossi mættust Árborg og Vængir Júpíters.

Leikurinn í Hveragerði var í járnum framan af en á 23. mínútu varð Kría fyrri til að skora. Eftir markið voru gestirnir ákveðnari og Hamri gekk illa að finna leiðina upp völlinn. Staðan var 0-1 í hálfleik en í seinni hálfleik var allt annað að sjá til Hamarsmanna. Þeir sköpuðu sér mörg ágætis færi áður en Aðalgeir Friðriksson jafnaði metin á 80. mínútu, 1-1 og þær urðu lokatölur leiksins.

Það var sömuleiðis hart barist á gervigrasinu á Selfossi og bæði lið fengu góð færi í upphafi leiks en Vængir Júpíters brutu ísinn á 25. mínútu. Árborg sótti í sig veðrið eftir það og Ísak Eldjárn Tómasson skoraði laglegt mark eftir aukaspyrnu á 43. mínútu, 1-1 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn hófst á stórsókn Vængjanna sem þjörmuðu verulega að vörn Árborgar. Hún lét undan á 60. mínútu þegar gestirnir skoruðu. Áfram voru Vængirnir líklegri en Árborg fékk einnig nokkur ágæt færi. Það var svo ekki fyrr en í uppbótartímanum að Ingi Rafn Ingibergsson óð upp miðjan völlinn og lét vaða af 35 metra færi. Stórbrotið jöfnunarmark og lokatölur 2-2.

Seinni leikir liðanna fara fram á þriðjudagskvöld og er ljóst að spennandi viðureignir eru framundan. Útivallamörk gilda í úrslitakeppninni þannig að það er ljóst að allt getur gerst.

Ísak Eldjárn Tómasson skorar fyrir Árborg og jafnar 1-1. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinRúta með 30 manns festist í Krossá
Næsta greinMarkaregn í lokaumferðinni