Allt í járnum fyrir lokasprettinn

Guðmundur Tyrfingsson með boltann inni í vítateig Þórsara. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það stefnir í svakalega baráttu í lokaumferðum Lengjudeildar karla í knattspyrnu, þar sem liðin í sætum sex til ellefu eru öll í fallhættu en eiga einnig möguleika á að komast í úrslitakeppni deildarinnar.

Þannig voru rándýr stig á boði á Selfossvelli í kvöld þegar Þór Akureyri kom í heimsókn. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli en bæði lið þráðu sigur og Selfyssingar fengu færin til þess að klára leikinn með sigri.

Þórsarar skoruðu eina mark fyrri hálfleiks á 34. mínútu eftir snarpa sókn og staðan var 0-1 í leikhléi. Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleiknum og Guðmundur Tyrfingsson jafnaði með skalla eftir hornspyrnu á 59. mínútu. Selfyssingar fengu góð færi í kjölfarið en á 83. mínútu var komið að Adrian Sanchez að skalla boltann í netið, aftur eftir hornspyrnu. Selfyssingar misstu einbeitinguna eitt augnablik þremur mínútum síðar og Þórsarar refsuðu með glæsimarki eftir hörkuskot úr teignum.

Jafnteflið gerir lítið til að breyta stöðu liðanna í deildinni. Þór er í 6. sæti með 24 stig en Selfoss í 10. sæti með 20 stig.

Fyrri grein„Útlitið er orðið svart“
Næsta greinÁrnessýsla án sjúkrabíls í 46 tíma