Allt í hnút í 2. deildinni

Hrvoje Tokic var í strangri gæslu ÍR-inga í leiknum en náði samt að skora eitt mark. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði nokkuð óvænt fyrir ÍR í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld, 2-4. Það óvænta var helst hversu sannfærandi sigur ÍR-inga var.

Selfoss var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og hefði átt að skora fleiri mörk en eina mark fyrri hálfleiks skoraði Hrvoje Tokic með frábæru skoti úr teignum eftir aukaspyrnu Þórs Llorens Þórðarsonar á 44. mínútu.

Í upphafi síðari hálfleiks voru Selfyssingar hins vegar algjörlega á afturfótunum og ÍR skoraði tvö ódýr mörk á fyrstu fimm mínútunum og það þriðja á 57. mínútu. Þá tóku Selfyssingar við sér aftur og gerðu harða hríð að marki gestanna á lokakaflanum.

Þeim vínrauðu tókst þó ekki að skora, heldur voru það ÍR-ingar sem bættu við fjórða markinu úr snarpri skyndisókn á 70. mínútu. Það var hart barist á lokakaflanum og gestirnir voru tilbúnari í þann slag. Selfoss náði sárabótarmarki á lokamínútunni þegar boltinn barst á Kenan Turudija fyrir utan vítateiginn og hann smellti honum snyrtilega í netið. Lokatölur 2-4.

Þrjú stig skilja að 2. og 8. sætið
Þrátt fyrir tapið eru Selfyssingar áfram í 3. sæti deildarinnar með 23 stig en segja má að deildin sé í algjörum hnút því aðeins þrjú stig skilja að Vestra í 2. sætinu með 24 stig og Völsung í 8. sætinu með 21 stig. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir Selfyssinga að ná stöðugleika á lokasprettinum en átta umferðir eru eftir af deildinni.

Fyrri greinHeitavatnslaust í Rangárþingi í nótt
Næsta greinUppfært: Julian Carl fundinn